top of page

Acerca de

viðtöl

Hallbjörg Björnsdóttir 

Fædd 1945

Hver kenndi þér að baka?
Ég fór í húsmæðraskóla þegar ég var átján ára og þar lærði maður ýmislegt sem við kom matseld. Svo eignaðist ég þrjá stráka sem borðuðu mikið og þannig lærði ég sjálf.

 

Bakaði amma þín og móðir þín mikið fyrir þig sem barn?
Móðir mín bakaði og eldaði alla tíð, mikinn og góðan mat.

 

Var ísskápur eða frystir í þínu heimili sem barn?
það kom ekki ísskápur inn á heimilið hjá foreldrum mínum fyrr en ég var ellefu ára gömul. Sigmar bróðir minn sem er fimm árum eldri en ég fór á sjó sextán ára gamall og keypti ísskáp handa mömmu fyrir launin sín og það var lítið frystihólf á ísskápnum.

 

Hvernig geymdu þið þá matinn eða afganga af matnum?
þar sem slökkvistöðin er í dag í Neskaupstað var frystigeymsla og þar gátu bæjarbúar fengið leigt frystihólf og hafði hver lykil að sínu hólfi og svo var opið þar viss tími á dag og þá gat maður farið og náð í það sem maður geymdi það. Þar var til dæmis geymt slátur sem var búið til á haustin og kjötskrokkar og síðan var kjöt saltað niður í tunnur og geymd í kaldri geymslu sem var við húsið.

 

Hvernig finnst þér matarmenning búinn að breytast á Íslandi frá því að þú vars barn með tilkomu betri geymslu aðferða og innflutning á erlendum mat og áhrifin af erlendri matargerð?
Matarmenning frá því að ég var barn hefur breyst svakalega. Foreldrar mínir keyptu lambskrokk á haustin og tóku slátur og það var allt saman nýtt af skepnunni. Þetta hefur breyst þannig að fólk fer í búðina og kaupir meira af tilbúnum mat og þarf ekki að eyða eins miklum tíma í matargerð eins og var, það var tekið heilir tveir til þrír dagar til að taka til slátrið og þá var allt annað eftir af skepnunni. Hér áður var allur matur ekkert forunninn, var bara beint af dýrinu. Nú er hinn almenni borgari ekkert að salta í tunnur lengur setur kjötið bara í frystinn eða fer í búð og kaupir það sem hann ætlar elda og getur eldað það strax. Hér áður var ekkert flutt inn af erlendum kjötvörum eingöngu hrein íslensk framleiðsla í boði. Í dag er mikil matarmenning frá öðrum löndum flust til Íslands til dæmis frá Ítalíu og Asíu.

 

Við matargerð tengist oft félagslegur þáttur við það að fá fólk í kaffi og bjóða í mat, finnst þér gaman að baka eða elda og bjóða ættingjum og vinum í mat?
Mér finnst mjög gaman að elda og bakað til að geta átt góða samveru stund með fjölskyldunni.

Guðný Valgý Franklín Jóhannsdóttir

Fædd 1940

Hver kenndi þér að baka?
Ég kenndi mér það nú sjálf en einnig fór ég í húsmæðraskólann en ég var byrjuð að læra sjálf áður en ég fór í húsmæðraskólann.

Bakaði amma þín og móðir þín mikið fyrir þig sem barn?
Móðir mín bakaði mikið til heimilsins  og ég hjálpaði henni mikið til þegar ég var komin með aldur til þess, en pabbi var bakarameistari og kom oft með brauðmeti heim en mamma bakaði til heimilisins en pabbi bakaði þegar það voru veislur, hans sérgrein þegar kom að veislum voru stórar og miklar rjómatertur

Var ísskápur eða frystir í þínu heimili sem barn?
Það voru engar frystikistur á mínu heimili en það var kominn ísskápur þegar ég var orðin 10 ára. 

Hvernig geymdu þið þá matinn eða afganga af matnum?
það var oftast nær enginn afgangur, í gamladaga var alltaf í sláturhúsinu á Akureyri voru alltaf frystiklefar sem fólk gat leigt hólf og geymt kjötið  og maður keypti fiskinn bara eftir þörfum.

Hvernig finnst þér matarmenning búinn að breytast á Íslandi frá því að þú vars barn með tilkomu betri geymslu aðferða og innflutning á erlendum mat og áhrifin af erlendri matargerð?
Matur er mun fjölbreyttari en er núna það voru ekki til neitt sem hét pizzur, pasta, pylsur og hamborgarar. þá voru bara hangikjöt, fiskur og kjötafurðir í boði svona venjulegt kjöt. Bara íslenskt kjöt i boði ekkert erlent. Mér finnst bara ágætt að hafa matarmenningu frá öðrum löndum með til að smakka og hafa með þó að maður haldi sig við þetta Íslenska.

Við matargerð tengist oft félagslegur þáttur við það að fá fólk í kaffi og bjóða í mat, finnst þér gaman að baka eða elda og bjóða ættingjum og vinum í mat?

Jájá auðvitað er það gaman að fá fjölskylduna saman, ég býð alltaf í  kaffi á sumardaginn fyrsta og á svona tyllidögum. Þegar við bjuggum í sveitinni þá var ég alltaf með eitthvað með kaffinu á hverjum degi og oft gestir að koma. Hreiðar sinnti einnig starfi sem oddviti og oft fundir heima og þá þurfti að taka til eitthvað kaffi handa körlunum. Fjölskyldan kom svo alltaf að smala og þá var matur og kaffi handa smölunum og við önnur álíka tilefni sem tengdust búskapnum.

Elísabet Halla Konráðsdóttir

Fædd 1997

Hver kenndi þér að baka?
Ömmur mínar og móðir mín voru helstu fyrirmyndir mínar og síðan fiktaði ég mig áfram sjálf.

Bakaði amma þín og móðir þín mikið fyrir þig sem barn?
Já, bæði ömmur og mamma. Mamma og móðuramma mín bjuggu í sveit svo það var ávallt mikið af kræsingum þar

Hvernig finnst þér matarmenning búinn að breytast á Íslandi frá því að þú vars barn með tilkomu betri geymslu aðferða og innflutning á erlendum mat?

Ég ólst upp við borða bara kjöt og fisk og svona hefðbundinn mat. Eftir að ég fór að búa ein hef ég meira verið að elda mat frá öðrum menningarheimum líkt og pastarétti og pizzur og finnst bara fínt að hafa það með.

Við matargerð tengist oft félagslegur þáttur við það að fá fólk í kaffi og bjóða í mat, finnst þér gaman að baka eða elda og bjóða ættingjum og vinum í mat?

Já ég hef gaman að því að bjóða fólki í mat og kaffi. Mér finnst þetta skemmtileg hefð og man alltaf eftir því þegar ég var krakki í sveitinni þegar öll stórfjölskyldan kom í mat eða kaffi.

Átt þú einhverja sterka minningu sem tengist matarmenningu og matargerð?

Já það á eg svo sannarlega og mikið af þeim, man ávallt eftir heimaslátrun í sveitinni og þegar kom að því að taka slátur, þá kom öll fjölskyldan saman við þetta verk. Sterkasta minningin er líklega þegar ég var um 5 ára aldur og hafði verið í sveitinni og séð heimaslátrun eiga sér stað og kom svo austur og í leikskólann og fór að lýsa þessu í þaula fyrir krökkunum og það vakti nú ekki mikla lukku hjá leikskólakennurunum.

bottom of page